Íslenski Þroskalistinn

 

Íslenska þroskalistanum er ætlað að meta þroska þriggja til sex ára barna með því að afla upplýsinga frá mæðrum þeirra. Mæður svara stöðluðum spurningum um mál- og hreyfifærni barna sinna á þeim tíma þegar listinn er fylltur út. Íslenski þroskalistinn er staðlaður hérlendis í úrtaki 1120 mæðra barna á aldrinum þriggja til sex ára. Þeir sem hafa lokið réttindanámskeiði um Íslenska þroskalistann mega nota listann.

Staðhæfingum í Íslenska þroskalistanum, 208 talsins, er skipt niður á sex undirpróf hans: Grófhreyfingar, Fínhreyfingar, Sjálfsbjörg, Hlustun, Tal og Nám. Fjöldi staðhæfinga í hverju undirprófi er mismunandi. Flestar staðhæfingar eru í undirprófinu Nám (60 stað­hæfingar) en fæstar í undirprófinu Fínhreyfingar (22 staðhæfingar). Með hverju undirprófi er tiltekið þroskasvið metið.

Við staðalbundna túlkun niðurstaðna úr hverju undirprófi er summu stiga fyrir hvert undirpróf breytt í mælitölur (staðalstig). Mælitölur eru normal­dreifðar. Eitt eða fleiri staðalfrávik fyrir ofan eða neðan meðaltal í slíkri dreifingu lýsir því hversu stórt hlutfall barna í stöðlunarúrtaki fær svipaða frammistöðu. Mælitölur gagnast því vel til að lýsa frammistöðu barns miðað við önnur börn. Á öllum undirprófum Íslenska þroskalistans er meðaltal mælitalna 50 og staðalfrávik 10.

Undirprófunum sex á Íslenska þroskalistanum er deilt niður á tvo prófþætti, Hreyfiþátt og Málþátt. Hreyfiþáttur er settur saman úr undir­prófunum Grófhreyfingar, Fínhreyfingar og Sjálfsbjörg. Hreyfiþáttur er mælikvarði á almenna hreyfifærni barns að mati móður. Málþáttur er settur saman úr undirprófunum Hlustun, Tal og Nám. Málþáttur er mæli­kvarði á almenna færni barns á málsviði að mati móður. Meðaltal hreyfi- og málþáttar er 100 og staðalfrávik 15.

Þroskatala er mælikvarði á almennan þroska barns. Þessi tala er sett saman úr öllum undirprófum þroskalistans og er því samantekt á mati móður á þroska barns. Þroskatala er yfirgripsmesta mælitala listans. Meðaltal þroskatölu er 100 og staðalfrávik 15.

Updating…
  • Engin vara í körfu.